Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 8  —  8. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um dómstóla og fleiri lögum (setning og leyfi dómara, áfrýjun einkamála, lögmannsréttindi o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „einn dómari“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: eða þrír.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hæstiréttur getur falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar málum.

2. gr.

    Orðið „landsréttardómari“ í 7. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Í stað „og VI“ í 55. gr. laganna kemur: VI og VIII.

4. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. 79. gr. laga nr. 117/2016, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. setur ráðherra frá 1. janúar 2018 til 1. júlí 2019, eftir beiðni Hæstaréttar, dómara við réttinn ef dómari er forfallaður vegna veikinda eða hefur verið veitt leyfi frá störfum og skal setja dómara samkvæmt tillögu réttarins. Á sama tímabili setur ráðherra eftir tillögu forseta réttarins varadómara til að taka sæti í tilteknu máli þrátt fyrir að ekki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 17. gr. að færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar geti tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla. Dómari sem hlýtur setningu skal fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Nú óskar skipaður dómari við Landsrétt leyfis frá störfum fyrir 1. janúar 2018 og getur ráðherra þá veitt slíkt leyfi til allt að þriggja mánaða ef sérstakar ástæður þykja til. Nú fær dómari við Landsrétt leyfi samkvæmt þessu ákvæði og verður annar dómari þá ekki settur í hans stað.

II. KAFLI

Breyting á lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016 (millidómstig), með síðari breytingum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á e-lið 29. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna ,,innan viku frá því að honum var tilkynnt um að Hæstiréttur veitti“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ósk um.
     b.      Orðin ,,ef hann kýs“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                 3. Nú afhendir sá er kærir eða óskar eftir kæruleyfi ekki kærumálsgögn til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 2. mgr. og verður þá ekki frekar af máli.

7. gr.

    Í stað 2. mgr. 78. gr. laganna, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, koma tvær nýjar málsgreinar, 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
    Nú hefur einkamáli verið áfrýjað til Hæstaréttar fyrir gildistöku laga þessara en það verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi og verður því þá ekki áfrýjað aftur til réttarins eftir að lögin öðlast gildi nema eftir heimild í 175. gr. laga um meðferð einkamála. Að öðrum kosti fer um málið eftir 4. mgr. 153. gr. sömu laga.
    Nú er áfrýjunarfrestur í einkamáli eftir eldri lögum ekki liðinn við gildistöku laga þessara og er þá heimilt að áfrýja máli innan þess frests til Landsréttar eða Hæstaréttar eftir heimild í 175. gr. laga um meðferð einkamála.

III. KAFLI

Breyting á lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs, nr. 117/2016, með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Hafi lögmaður fyrir 1. janúar 2018 lokið a.m.k. einu prófmáli fyrir Hæstarétti er honum heimilt að ljúka öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti með flutningi prófmála eftir þeim reglum sem giltu fyrir það tímamark, enda sé um að ræða mál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018. Lögmaður sem nýtir sér þessa heimild getur hvenær sem er ákveðið að um öflun réttinda hans fari eftir viðeigandi ákvæði 3.–5. mgr.
     b.      Í stað orðanna „Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið þremur prófmálum fyrir Hæstarétti“ í 2. mgr. kemur: Hafi lögmaður lokið þremur prófmálum fyrir Hæstarétti samkvæmt þeim reglum sem giltu fyrir 1. janúar 2018.
     c.      Í stað orðanna „Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti“ í 3. mgr. kemur: Hafi lögmaður lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti samkvæmt þeim reglum sem giltu fyrir 1. janúar 2018.
     d.      Í stað orðanna „Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti“ í 4. mgr. kemur: Hafi lögmaður lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti samkvæmt þeim reglum sem giltu fyrir 1. janúar 2018.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í dómsmálaráðuneytinu, að hluta til á grundvelli tillagna frá Hæstarétti, og varðar ýmis atriði sem nauðsynlegt er að kveða skýrar á um vegna þeirrar breytingar sem verður á dómstólaskipan í upphafi nýs árs 2018.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þessarar lagasetningar eru þær breytingar sem verða 1. janúar nk. þegar Landsréttur tekur til starfa. Nauðsynlegt er vegna þeirra breytinga að leggja fram frumvarp þetta. Eins og nánar verður lýst í 3. kafla má skipta þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu í fjóra flokka. Í fyrsta lagi tímabundna heimild til að setja dómara og varadómara við Hæstarétt, í öðru lagi tímabundna heimild ráðherra til að veita skipuðum dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður þykja til, í þriðja lagi breytingar á fyrirkomulagi öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti og í fjórða lagi er að finna í frumvarpinu ákvæði er skerpa á atriðum er varða kærur og áfrýjanir einkamála til Hæstaréttar og ákvæði er stuðla að aukinni hagkvæmni í störfum réttarins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu má að efni til skipta í fernt eins og áður hefur komið fram. Er þar fyrst að nefna tillögu um tímabundna heimild til setningar dómara við Hæstarétt Íslands. Lög um dómstóla, nr. 50/2016, öðlast gildi 1. janúar 2018 og leysa af hólmi eldri lög um sama efni, nr. 15/1998. Með frumvarpi þessu er lagt til að frá gildistöku laganna til 1. júlí 2019 verði heimilt að setja dómara við Hæstarétt Íslands ef dómari er forfallaður vegna veikinda eða hefur verið veitt leyfi frá störfum. Jafnframt er gert ráð fyrir að á sama tímabili verði heimilt að setja dómara við réttinn til að taka sæti í tilteknu máli, svonefnda varadómara. Samkvæmt 78. gr. laga nr. 49/2016, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 53/2017, mun öllum einkamálum sem áfrýjað er til Hæstaréttar áður en Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 verða lokið í Hæstarétti. Aftur á móti verða sakamál sem eru ódæmd við gildistöku laganna upp frá því rekin fyrir Landsrétti. Af þessum sökum verður umtalsverður fjöldi einkamála til úrlausnar fyrir Hæstarétti á sama tíma og rétturinn þarf að endurskipuleggja starfsemi sína í samræmi við breytt hlutverk eftir lögum nr. 50/2016.
    Með lögum nr. 50/2016 var ákveðið að fækka dómurum við Hæstarétt úr tíu í sjö á þann hátt að ekki verður skipað í þau embætti sem losna þar til tilskilinni fækkun verður náð. Var þá lagt til grundvallar að það tæki nokkurn tíma að ná umræddri fækkun og hún yrði ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en eftir að breytt starfsemi hans væri komin í fastar skorður, þar á meðal að fækkun mála sem hann fær til meðferðar hefði átt sér stað. Tveir hæstaréttardómarar létu hins vegar af störfum á haustmánuðum 2017 og er því ljóst að dómarar við réttinn verða einungis átta hinn 1. janúar nk. Gera má ráð fyrir að einn dómari verði að jafnaði í námsleyfi eins og heimild stendur til eftir úrskurð kjararáðs frá 17. desember 2015. Við því er nauðsynlegt að bregðast. Af þeim sökum er lögð til tímabundin heimild til að setja dómara og varadómara við Hæstarétt svo unnt verði innan hæfilegs tíma að ljúka þeim einkamálum sem áfrýjað hefur verið til réttarins fyrir 1. janúar 2018 áður en Landsréttur tekur til starfa. Er þess þá að gæta að óheppilegt er um langan tíma að reka tvöfalt kerfi þar sem Hæstiréttur dæmir annars vegar á öðru dómstigi á sama tíma og rétturinn er orðinn að þriðja dómstigi. Jafnframt er lagt til að heimilt verði tímabundið að setja varadómara til að taka sæti í tilteknu máli án þess að uppfyllt séu almenn skilyrði fyrir setningu varadómara í 1. mgr. 17. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti munu um 260 áfrýjuð einkamál verða til meðferðar hjá dómstólnum þann 1. janúar 2018 og er áætlað að meðferð þeirra ljúki ekki fyrr en um mitt ár 2019 miðað við óbreytt ástand. Verði frumvarp þetta aftur á móti að lögum er gert ráð fyrir að meðferð þeirra ljúki í upphafi árs 2019.
    Í öðru lagi er lögð til sérstök tímabundin heimild fyrir ráðherra til að veita dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður standa til þess. Svo sem fyrr getur tekur Landsréttur til starfa við gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, þann 1. janúar 2018 og tekur skipun dómara við réttinn gildi við það tímamark, að frátalinni skipun forseta Landsréttar sem þegar hefur tekið gildi. Við gildistöku nýrra laga um dómstóla verður jafnframt sú breyting á að leyfisveitingar dómara, sem fram til þessa hafa verið á hendi ráðherra, verða eftirleiðis í umsjón og á ábyrgð dómstólasýslunnar en sú stofnun mun þó eðli málsins samkvæmt einungis fara með þær valdheimildir frá gildistöku laganna. Nú háttar svo til að einn þeirra sem hlotið hefur skipun sem dómari við Landsrétt frá og með 1. janúar 2018 hefur síðastliðna mánuði verið settur ríkissaksóknari í svonefndum Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem endurupptekin hafa verið samkvæmt ákvörðunum endurupptökunefndar, dags. 24. febrúar 2017. Hefur settur ríkissaksóknari annast allan undirbúning og málatilbúnað ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti í framangreindum málum. Ljóst er aftur á móti að meðferð þessara mála verður ekki lokið þann 1. janúar 2018 þegar Landsréttur tekur til starfa og skipunartími umrædds dómara tekur gildi. Af augljósum ástæðum þykir ekki rétt að sami einstaklingur gegni embættum landsréttardómara og setts ríkissaksóknara samhliða. Aftur á móti standa allar hagkvæmnisástæður til þess að hann ljúki störfum sem settur ríkissaksóknari fremur en að til starfans verður settur nýr einstaklingur enda um afar umfangsmikil mál að ræða. Í því ljósi er lagt til að lögfest verði sérstök heimild til handa ráðherra til að veita skipuðum dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður standa til þess, til allt að þriggja mánaða, óski dómari slíks leyfi fyrir 1. janúar 2018. Heimildin er eðli málsins samkvæmt tímabundin þar sem gert er ráð fyrir að meðferð málanna ljúki í Hæstarétti snemma árs 2018.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á fyrirkomulagi öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti hvað varðar þá lögmenn sem hafa flutt að minnsta kosti eitt prófmál fyrir réttinum þann 1. janúar 2018. Þegar löggjöf sú sem kemur á fót millidómstigi hér á landi var samþykkt árið 2016 var ráðgert að öll mál, bæði sakamál og einkamál, sem áfrýjað hefði verið til Hæstaréttar mundu færast til Landsréttar þegar hann tæki til starfa. Frá því fyrirkomulagi var aftur á móti fallið með lögum nr. 53/2017 og ákveðið að öllum einkamálum sem áfrýjað er til Hæstaréttar áður en Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 verði lokið í Hæstarétti. Svo sem fyrr getur er áætlað að þessi mál verði um 260 talsins og er ljóst að nokkur hluti þeirra mun uppfylla skilyrði prófmáls samkvæmt gildandi löggjöf. Þykir í því ljósi eðlilegt að gefa þeim lögmönnum sem hafa flutt a.m.k. eitt prófmál fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 kost á að ljúka öflun málflutningsréttinda fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum kjósi þeir það. Þessir lögmenn geta hins vegar einnig öðlast réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti á grundvelli annarra ákvæða bráðabirgðaákvæðis laganna kjósi þeir svo.
    Loks er í fjórða lagi að finna í frumvarpinu ákvæði er skerpa á atriðum er varða kærur og áfrýjanir einkamála og ákvæði er stuðla að aukinni hagkvæmni í starfsemi réttarins. Um þessi atriði vísast nánar til skýringa við 1., 2., 6. og 7. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur ekki í sér nein álitaefni er varða stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt fyrir réttarfarsnefnd, Hæstarétti Íslands, Lögmannafélagi Íslands, settum ríkissaksóknara og forseta og skrifstofustjóra Landsréttar. Frumvarpið hefur ekki verið kynnt almenningi.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að í stað þeirra tveggja hæstaréttardómara sem létu af störfum við Hæstarétt árið 2017 verði einn dómari settur fyrir dómara í leyfi og að varadómarar verði í einhverjum mæli settir til að taka sæti í tilteknu máli. Þannig mun frumvarpið fela í sér kostnað sem samsvarar launum eins dómara við Hæstarétt Íslands í 18 mánuði frá og með 1. janúar 2018 til 1. júlí 2019 og þóknun til varadómara í um 20 málum en gera má ráð fyrir að þóknun nemi um 150 þús. kr. fyrir hvert mál. Áætlað er að umræddur kostnaður muni samtals nema um 40,2 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að sett verði fyrir þann landsréttardómara sem fær leyfi í byrjun árs 2018. Er til þess að líta að um stuttan tíma er að ræða sem og að ekki verður mikill fjöldi mála til meðferðar í réttinum á fyrstu starfsvikum hans. Frumvarpið mun því ekki verða til kostnaðarauka fyrir Landsrétt. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, og þriggja ára áætlun 2018–2020 sem því fylgir, er gert ráð fyrir því að 10 dómarar starfi við Hæstarétt en að þrír dómarar láti af störfum árið 2019. Kostnaðaráhrifin á ársgrundvelli eru metin sem ígildi eins stöðugildis 2019 og þriggja stöðugilda 2020. Eftir það verði sjö dómarar starfandi við Hæstarétt.
    Tveir dómarar létu af störfum á haustmánuðum 2018 og var ekki skipað í þeirra stað. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018, og þriggja ára áætlun 2018–2020 sem því fylgir, er því fullt svigrúm fyrir þeirri útgjaldaaukningu sem af frumvarpinu hlýst.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð umfram það sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og þriggja ára áætlun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 16. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, er nú kveðið á um að forseti Hæstaréttar geti ákveðið að einn dómari haldi þing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Með a-lið 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að forseti geti jafnframt ákveðið að þrír dómarar haldi slíkt þing þegar við á. Með b-lið er lagt til að Hæstiréttur geti falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar málum. Er þessi tillaga fyrst og fremst byggð á hagræðis- og skilvirknisjónarmiðum.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að fellt verði brott það hæfisskilyrði fyrir skipun sem dómari við Landsrétt að umsækjandi hafi starfað í minnst þrjú ár sem landsréttardómari. Slíkt skilyrði er bersýnilega þarflaust og er hér einungis um lagfæringu að ræða.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er uppfærð gildistökugrein í lögum nr. 50/2016 til samræmis við efni 5. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Eins og áður er rakið í greinargerðinni er lagt til að heimilt verði á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til 1. júlí 2019 að setja dómara við Hæstarétt ef dómari er forfallaður vegna veikinda eða hefur verið veitt leyfi frá störfum. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að setja dómara til að taka sæti í tilteknu máli þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2016 um að færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar geti tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla. Þannig verður varadómari settur í tiltekið mál þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt af nefndum ástæðum.
    Varadómari skal koma úr röðum þeirra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/2016. Þó er heimilt að setja dómara þótt hann hafi náð 70 ára aldri. Að þessu leyti er frumvarpið samhljóða eldri lögum um dómstóla, nr. 15/1998, um setningu varadómara og er þá haft í huga að flest mál sem dæmd verða á þessu tímabili verða mál sem áfrýjað hefur verið í gildistíð þeirra laga.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um heimild ráðherra til þess að veita skipuðum dómara við Landsrétt leyfi ef sérstakar ástæður standa til þess og leyfis er óskað fyrir 1. janúar 2018. Um ástæður þessarar tillögu vísast til umfjöllunar í 3. kafla greinargerðarinnar. Lagt er til að slíkt leyfi geti ekki staðið lengur en í þrjá mánuði og er jafnframt skýrt kveðið á um að fái dómari við Landsrétt leyfi samkvæmt ákvæðinu verði annar dómari ekki settur í hans stað.

Um 6. gr.

    Með a-lið 6. gr. frumvarpsins er lögð til lagfæring á orðalagi þannig að skýrt sé að með viku fresti til að skila tilskildum kærumálsgögnum sé átt við frest frá því tímamarki er kæra eða ósk um kæruleyfi var sent Hæstarétti, en ekki sendingu kæru og tilkynningu Hæstaréttar um veitingu kæruleyfis.
    Með b-lið er lagt til að ekki verði valkvætt heldur skylda að kæru til Hæstaréttar eða ósk um kæruleyfi fylgi greinargerð sem inniheldur kröfur málsaðila, málsástæður sem byggt er á, sem og rökstuðning fyrir því að taka skuli kæru til meðferðar. Þykir eðlilegt að framangreind atriði séu í öllum tilvikum sett fram í skriflegri greinargerð til réttarins.
    Með c-lið er að lokum lagt til að skýrt verði kveðið á um að ef kærumálsgögnum er ekki skilað innan tilskilins frests til Hæstaréttar þá verði ekki frekar af máli.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er tekið af skarið um hvernig fara beri með einkamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar í gildistíð eldri laga þannig að því verði áfrýjað eftir yngri lögum ef það verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi eftir að yngri lög hafa tekið gildi. Fer þá um áfrýjun eftir þeim reglum sem taka gildi 1. janúar 2018. Jafnframt er felld niður gildandi 2. mgr. 78. gr. þar sem hennar er ekki þörf lengur. Með ákvæðinu var lagt til að unnt væri innan fjögurra vikna frá gildistöku laganna að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna þeirra einkamála og sakamála sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar fyrir gildistöku laganna en flutt höfðu verið til Landsréttar. Var ákvæðið sett inn þegar fyrirhugað var að öll mál sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar yrðu flutt til Landsréttar. Með lögum nr. 53/2017 var kveðið á um að þeim einkamálum sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar en ekki er lokið 1. janúar 2018 verði lokið í Hæstarétti en þau sakamál sem áfrýjað hefur verið og ekki er lokið í Hæstarétti 1. janúar 2018 flytjist til Landsréttar. Því er ekki lengur þörf á ákvæði 2. mgr. 78. gr. eins og það nú hljóðar og er lagt til að ný 2. mgr. komi til sem kveður eingöngu á um meðferð einkamála sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 en hafa ekki verið þingfest, fallið niður eða vísað frá dómi eins og gerð hefur verið grein fyrir. Þá er kveðið skýrt á um að eldri reglur um áfrýjunarfrest fylgi einkamáli sem lokið hefur í héraði fyrir 1. janúar 2018. Ef áfrýjunarfrestur í einkamáli er ekki liðinn 1. janúar 2018 þá verður unnt að áfrýja málinu til Landsréttar eða til Hæstaréttar skv. 175. gr. laga um meðferð einkamála innan þess áfrýjunarfrests sem í gildi var þegar dómur var kveðinn upp. Að öðrum kosti gæti komið til þess að áfrýjunarfrestur væri í raun liðinn 1. janúar 2018 ef máli hefur ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar fyrir þau tímamót.

Um 8. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á því ákvæði til bráðabirgða í lögum um lögmenn, nr. 77/1998, eins og það mun hljóða eftir 1. janúar 2018, sem fjallar um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti í hinni nýju dómstólaskipan. Ákvæðið nær einungis til þeirra lögmanna sem hafa flutt a.m.k. eitt prófmál fyrir Hæstarétti við það tímamark. Líkt og kemur fram í 3. kafla greinargerðarinnar er áætlað að um 260 einkamál sem áfrýjað er fyrir 1. janúar 2018 verði til meðferðar hjá réttinum og má gera ráð fyrir að nokkur hluti þeirra mála uppfylli skilyrði prófmáls samkvæmt gildandi lögum. Þykir eðlilegt að þau mál geti áfram nýst lögmönnum til öflunar málflutningsréttinda kjósi þeir svo. Er rétt að árétta að einungis þau mál sem áfrýjað hefur verið fyrir 1. janúar 2018 geta nýst lögmönnum sem prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti samkvæmt þessu ákvæði en gert er ráð fyrir að þessum málum verði lokið fyrir Hæstarétti í byrjun árs 2019.
    Þessi breyting felur í raun í sér að lögmaður sem hefur lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 hefur val um hvort hann lýkur öflun réttinda fyrir því dómstigi eftir eldri reglum eða skv. 3.–5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um lögmenn eins og það mun hljóða eftir gildistöku þess 1. janúar 2018. Þetta má skýra nánar með dæmum.
    Í fyrsta lagi getur sú aðstaða verið uppi að lögmaður hafi lokið flutningi þriggja prófmála þann 1. janúar 2018, og verða honum þá þegar veitt réttindi fyrir málflutningi fyrir Landsrétti. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytji fjórða og síðasta prófmál sitt fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum, eða hvort hann flytji fjögur mál fyrir Landsrétti, þar af þrjú einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti eftir 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
    Í öðru lagi má hugsa sér að lögmaður hafi lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 og má þá veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þegar hann hefur flutt þar eitt prófmál. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytji tvö prófmál til viðbótar fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum, eða hvort hann flytji átta mál fyrir Landsrétti, þar af fimm einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti eftir 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
    Í þriðja lagi getur staðan verið sú að lögmaður hafi lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 og má þá veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þegar hann hefur flutt þar tvö prófmál. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytji þrjú prófmál til viðbótar fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum, eða hvort hann flytji tólf mál fyrir Landsrétti, þar af átta einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti eftir 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
    Rétt er að taka fram að ekki er ráðgert að lögmaður þurfi að taka ákvörðun í eitt skipti fyrir öll um hvora leiðina hann kýs að fara, heldur geti hann á hvaða tímapunkti sem er ákveðið að færa sig í nýrra kerfi telji hann útséð um að hann geti flutt fleiri prófmál fyrir Hæstarétti eftir eldri reglum.

Um 9. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.